Roadracedeild AÍH

14. mars 2007 var samþykkt á aðalfundi Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar (AÍH) tillaga fjórtán einstaklinga um að stofna götuhjóladeild innan félagsins. Með stofnun deildarinnar var stigið stórt skref til framfara fyrir þá sem stunda akstursíþróttir á götumótorhjólum. Þar með gefst þeim sem hafa áhuga á að leggja stund á “Road Race” á Íslandi tækifæri á að ganga í deild í fullgildu íþróttafélagi sem hefur eingöngu götumótorhjólaakstur á stefnuskránni og að taka þátt í að byggja upp aðstöðu fyrir sportið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Road Race deild AÍH (RR-AÍH) er fyrsta deildin innan íþróttafélags sem snýr einungis að málefnum þeirra sem hafa áhuga á að keyra Road Race á Íslandi. Einnig gefur þetta einstaklingum sem ganga í Road Race deild AÍH möguleika á að sækja um keppnisskírteini FIM og taka þátt í keppnum erlendis fyrir Íslands hönd. AÍH er aðili að íþróttahreyfingunni og MSÍ. MSÍ er aðili að UEM (Evrópusamtök mótorhjólamanna) og FIM (Alþjóðasamtök mótorhjólamanna) en þau halda m.a. MotoGP, Superbike
WC og SuperMoto S1 WC keppnirnar. RR-AÍH vinnur hörðum höndum með stjórn AÍH að draumi margra, þ.m.t. ökukennara, lögreglu- og sjúkraflutningamanna og fjölda annarra, um að stór braut verði byggð hér á landi. Slík braut væri ekki byggð til þess eins að keppa í mótorsporti heldur einnig til þess að þeir sem eru að læra að aka bílum og mótorhjólum geti æft sig að aka í öruggu umhverfi við mismunandi aðstæður á lokaðri braut þar sem öryggiskröfum er fullnægt.

<a href="https://www.msisport.is/pages/mot/reglur5/" target="_blank">Smelltu hér til að skoða reglur MSÍ</a>

Við núverandi aðstæður heldur deildin úti æfingum á akstursíþróttabraut okkar í Kapelluhrauni við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði yfir sumartímann. Við höfum brautina til afnota á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum og hefur æfingatíminn verið 19:00-21:00, eða eins og veður og aðstæður leyfa. Þá er keyrt í hollum og fer skipting þeirra upp eftir fjölda, getu ökumanna og ökutæki (RR, SM, skellinöðru, etc.). Auk þess höfum við haldið sérstaka viðburði í þeim tilgangi að kynna starfsemina og hjálpa fólki að kynnast sportinu og öðrum ökumönnum með sama áhugamál. Tilraunir hafa verið gerðar með keppnishald og eru miklar vonir bundnar við tímatökubúnað sem fjárfesta á í á næstu misserum, en brautin er full þröng til þess að leyfa keppni á stórum hjólum í hópi. Eins eru í farvatninu breytingar á svæði AÍH og um leið stækkun brautarinnar, sem mun þá gefa mótorhjólamönnum aukna möguleika til æfinga og keppnishalds.