Kynferðislegt áreiti og ofbeldi

Kynferðislegt áreiti og ofbeldi

Íþróttafélög geta haft samband við ÍSÍ ef þau vilja fá nánari fræðslu um þetta málefni. Það skal tekið fram að ef einhver grunur er á að kynferðislegt ofbeldi hafi átt sér stað ber að tilkynna það annað hvort til barnaverndaryfirvalda eða með símtali í 112 og tilkynna í nafni félags.

Lesa má nánar um forvarnir á vefsíðu ÍSÍ hér.
 • Hvað er kynferðislegt áreiti og kynferðislegt ofbeldi?
  • Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður.
   • -Það er upplifun þess sem verður fyrir hegðuninni, en ekki tilgangur gerandans, sem segir til um hvort um sé að ræða áreitni eða ekki
  • Kynferðislegt ofbeldi eru kynferðislegar athafnir gagnvart einstaklingi sem ekki hefur gefið eða er ófær um að veita samþykki sitt. Kynferðislegt ofbeldi getur falið í sér;
   • Káf og þukl innan sem utan klæða á kynfærum eða öðrum persónulegum stöðum
   • Munnmök
   • Samfarir eða tilraun til þeirra
   • Kynferðislegar myndatökur, áhorf á persónulega staði eða sýna/senda kynferðislegt efni
  • Kynferðislegur lögaldur er 15 ára. Það þýðir að fyrir þann aldur eru allar kynferðislegar athafnir, með eða án vilja barnsins, ólöglegar.
 • Hvernig á íþróttafélagið að bregðast við upplýsingum um kynferðislegt áreiti eða ofbeldi?
  • Íþróttafélagið skal taka öllum tilkynningum alvarlega.
  • Ef þolandi er lögráða skal sterklega hvetja viðkomanda til að kæra málið til lögreglu. Hringja í 112.
  • Ef brotið hefur verið gegn ólögráða einstaklingi ber að tilkynna til Barnaverndar í síma 112.
  • Ef grunur vaknar um að forráðamaður/-menn eiga sjálfir aðild að kynferðislegu ofbeldi gegn barni skal hafa samband beint við lögreglu eða barnaverndaryfirvöld í síma 112.
  • Ef menn eru í vafa um hvernig eigi að bregðast við skal hafa samband við lögreglu, kynna málið og leita ráða í síma 112.
  • Þolendur eiga kost á að leita sér stuðnings og aðstoðar hjá;
   -Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis, Landsspítali Fossvogi, slóð má finna hér.
   -Barnavernd Reykjavíkur í síma 411-1111.
  • Gerendur ofbeldis geta leitað til heimilsfridur.is eða í síma 555-3020.

 

 • Getum við komið í veg fyrir misnotkun í íþróttafélaginu?
  • Svarið er því miður nei en við getum gert lífið erfitt fyrir gerandann og minnkað líkurnar verulega. Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir hvers kyns ofbeldi eru sameiginleg gildi. Heldur félagið þitt í heiðri sameiginlegum gildum? Eru siðareglur til staðar sem endurspegla þau gildi sem félagið vill starfa eftir? Hvaða væntingar og kröfur höfum við til þjálfara og annars starfsfólks? Hvers konar samskipti viljum við eiga við foreldra?. Hefur félagið þitt útbúið siðareglur sem endurspegla þau gildi sem félagið vill starfa eftir? Eru þær sýnilegar?Siðareglur geta til að mynda verið reglur eins og:
   • Í félaginu tölum við fallega við hvert annað.
   • Við líðum ekki dónalegar upphrópanir eða athugasemdir um líkama hvors annars.
   • Það eru ávallt að minnsta kosti tveir þjálfarar eða þjálfari og annar fullorðinn einstaklingur í ferðalögum á vegum félagsins.
   • Þjálfari eða starfsmaður fer ekki inn í búningsherbergi nema gengið hafi verið í skugga um að allir séu klæddir/klæddar.
   • Þjálfari býður ekki einstaka barni heim til sín.
   • Félagið eða stjórn félags er skyldugt til þess að taka ábendingar um kynferðislegt áreiti eða ofbeldi alvarlega og bregðast skjótt við.
   • Félag fær leyfi til að fletta upp í sakaskrá við ráðningu þjálfara eða fer fram á þjálfari skili inn sakavottorði.
   • Ef vísbendingar eru um að barn hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi ber að tilkynna það til viðkomandi barnaverndarnefndar. Tilkynna skal í nafni félags.

 

 • Hefur þú orðið fyrir kynferðislegu áreiti og/eða ofbeldi í íþróttastarfi?
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir.
   -Að segja frá ofbeldinu/áreitninni er fyrsta skrefið til að stöðva það. Það er mikilvægt að láta vita svo viðkomandi fái ekki tækifæri til að halda slíkri hegðun áfram gagnvart þér eða öðrum.
  • Þú getur fengið hjálp
   • Með því að segja frá getur þú unnið úr sársaukanum og öðlast meiri styrk
   • Ábyrgðin er aldrei þín
   • Ofbeldið er aldrei þér að kenna
   • Hafðu samband við lögreglu og/eða neyðarmóttöku ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi.
    -Símanúmer lögreglu er 112

 

ÍSÍ fékk leyfi frá Norska Íþrótta- og Ólympíusambandinu til þess að nýta myndböndin sem sambandið lét gera í tengslum við málefnið.

Hér, á Vimeo-síðu ÍSÍ, má sjá öll myndböndin á einum stað.